Ramos bjargaði stigi á Camp Nou

Barcelona og Real Madrid skildu jöfn, 1:1, í uppgjöri stórveldanna í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu á Camp Nou í Barcelona í dag. 

Real Madrid er með 34 stig á toppnum, Barcelona 28 og Sevilla 27 en Sevilla tapaði óvænt fyrir botnliðinu Granada, 2:1, fyrr í dag.

Eftir tíðindalítinn fyrri hálfleik náði Barcelona undirtökunum á 53. mínútu þegar Luis Suárez skoraði með skalla eftir aukaspyrnu frá Neymar. Allt stendi í sigur Börsunga en þegar 90 mínúturnar voru að renna út jafnaði Sergio Ramos á svipaðan hátt, með skalla eftir aukaspyrnu frá Luka Modric.

Gífurlega mikilvægt mark því í stað þess að Barcelona minnkaði forskot Real niður í þrjú stig munar áfram sex stigum á liðunum og fjórða jafntefli Börsunga í röð í deildinni var staðreynd.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

90. Leiknum er lokið með jafntefli! Barcelona fékk færi í blálokin til að tryggja sér sigur.

90. MARK - 1:1. Á ögurstundu er það Sergio Ramos fyrirliði Real Madrid sem jafnar metin með glæsilegum skalla eftir aukaspyrnu frá Luka Modric, rétt í þann mund sem 90 mínúturnar eru að renna út.

87. Denis Suárez kemur inn á hjá Barcelona fyrir Neymar.

83. GULT - Sergio Busquets hjá Barcelona fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Marco Asensio.

82. Lionel Messi skýtur fram hjá marki Real Madrid úr dauðafæri!

80. GULT - Daniel Carvajal hjá Real Madrid fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Neymar.

78. Arda Turan kemur inn á fyrir Andre Gomes sem meiðst hjá Barcelona.

77. Marco Asensio kemur inn á fyrir Karim Benzema hjá Real Madrid.

75. GULT - Luis Suárez hjá Barcelona fær gula spjaldið fyrir munnsöfnuð.

68. Neymar brunar inn í vítateig Real Madrid en skýtur yfir markið úr góðu færi.

66. Casemiro kemur inn á fyrir Isco hjá Real Madrid.

60. Andrés Iniesta kemur inn á fyrir Ivan Rakitic hjá Barcelona.

53. MARK - 1:0. Neymar með frábæra sendingu, aukaspyrnu frá vinstri kantinum, á Luis Suárez sem skorar með skalla og Barcelona er komið yfir!

50. Áhorfendur eru 98.455 og stór hluti þeirra fagnaði gífurlega þegar Andrés Iniesta hljóp af stað til að hita upp.

46. Seinni hálfleikur er hafinn á Camp Nou.

45. Hálfleikur, staðan er 0:0 og mest lítið um marktækifæri í El Clasico að þessu sinni. Real Madrid hefur verið heldur sterkari aðilinn eftir því sem á hefur liðið.

37. Fyrsta umtalsverða færið en Marc-Andre ter Stegen í marki Barcelona ver frá Cristiano Ronaldo.

28. GULT. Neymar fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Lucas Vázquez, leikmanni Real Madrid.

15. Barcelona var með boltann 68 prósent gegn 32 prósentum Real Madrid fyrsta korterið.

13. GULT. Isco hjá Real Madrid fær fyrsta gula spjald dagsins fyrir brot á Neymar.

0. Leikurinn er hafinn á Camp Nou. Lionel Messi er fyrirliði Barcelona og það er í fyrsta skipti sem hann fer fyrir liðinu í El Clasico.

Barcelona: Ter Stegen, Roberto, Piqué, Mascherano, Alba, Rakitic, Busquets, Gomes, Messi, Suárez, Neymar.

Real Madrid: Navas, Carvajal, Varane, Ramos, Marcelo, Modric, Kovacic, Vázquez, Isco, Ronaldo, Benzema.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert