Norður-Kórea heimsmeistari - myndskeið

Leikmenn Norður-Kóreu fagna heimsmeistaratitlinum.
Leikmenn Norður-Kóreu fagna heimsmeistaratitlinum.

Norður-Kórea varð rétt í þessu heimsmeistari U20 ára kvenna í knattspyrnu með því að leggja Frakkland að velli, 3:1, í úrslitaleik í Port Moresby, höfuðborg Papúa Nýju-Gíneu.

Frakkar komust yfir á 17. mínútu með marki frá Grace Geyoro en Jong Sim jafnaði fyrir Norður-Kóreu eftir hálftíma leik. Phyong Hwa skoraði fyrir Norður-Kóreu, 2:1, eftir tíu mínútur í seinni hálfleik og So Yon innsiglaði sigurinn úr vítaspyrnu undir lokin.

Þetta er í annað sinn sem Norður-Kórea fagnar heimsmeistaratitli í þessum aldursflokki en fyrra skiptið var árið 2006. A-landslið þjóðarinnar hefur um árabil verið í hópi tíu bestu liða heims en svartur blettur féll þó á liðið fyrir tveimur árum þegar nokkrir leikmenn þess voru dæmdir fyrir ólöglega lyfjanotkun sem leiddi til þess að Norður-Kórea fékk ekki að taka þátt í lokakeppni heimsmeistaramótsins í Kanada á síðasta ári.

Japan tryggði sér bronsverðlaunin í morgun með því að sigra Bandaríkin, 1:0, á sama velli í Port Moresby.

Fögnuður og vonbrigði í leikslok:

Þriðja mark Norður-Kóreu sem gulltryggði liðinu heimsmeistaratitilinn:

Fyrirliðar Norður-Kóreu og Frakklands heilsast fyrir úrslitaleikinn í dag.
Fyrirliðar Norður-Kóreu og Frakklands heilsast fyrir úrslitaleikinn í dag. Ljósmynd/@WSUasa
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert