Þurfum að bæta okkur á heimavelli

Luis Enrique.
Luis Enrique. AFP

Luis Enrique, þjálfari Spánarmeistara Barcelona, segir að liðið þurfi að bæta árangur sinn á heimavelli til þess að koma í veg fyrir að Real Madrid vinni Spánarmeistaratitilinn í fyrsta sinn í fimm ár.

Erkifjendurnir Barcelona og Real Madrid skildu jöfn, 1:1, á Camp Nou í Barcelona í dag þar sem miðvörðurinn Sergio Ramos jafnaði fyrir Madridarliðið á lokamínútum leiksins. Þar með er Real Madrid enn sex stigum á undan Barcelona í toppsæti deildarinnar.

Börsungar hafa þar með tapað níu stigum á heimavelli á tímabilinu en þeim hefur aðeins tekist að vinna þrjá af síðustu deildarleikjum sínum á heimavelli.

„Eins og málin standa í dag er Real Madrid með örugga forystu og hefur spilað marga leiki án þess að misstíga sig,“ sagði Enrigue eftir leikinn.

„Eini möguleiki okkar til að breyta stöðunni er sá að við vinnum alla þá leiki sem við eigum eftir og náum þar með að setja pressu á þá. Við þurfum að bæta okkur og þá sérstaklega á heimavelli,“ sagði þjálfari Barcelona.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert