Matthías hjá Rosenborg til 2019

Matthías Vilhjálmsson skrifar undir nýja samninginn.
Matthías Vilhjálmsson skrifar undir nýja samninginn. Ljósmynd/rbk.no

Knattspyrnumaðurinn Matthías Vilhjálmsson hefur skrifað undir nýjan samning við norsku meistarana í Rosenborg og gildir samningurinn út árið 2019.

Matthías hefur orðið tvöfaldur meistari, tvö ár í röð, með Rosenborg eftir að hann kom til félagsins frá Start. Fyrri samningur hans við félagið átti að renna út í lok næsta árs en Rosenborg vildi halda kappanum, sem var valinn leikmaður ársins af stuðningsmönnum.

„Þetta var auðvelt val. Mér hefur liðið vel í Þrándheimi og finnst Rosenborg vera einstakt félag. Ég hlakka til hverrar einustu æfingar og hef ekki áður kynnst svona miklum samhug í einum leikmannahópi,“ sagði Matthías við vef Rosenborgar.

„Kona mín og barn hafa það líka mjög gott í Þrándheimi. Það er eiginlega enn mikilvægara en það að ég hafi það gott, svo þetta var mjög auðveld ákvörðun,“ sagði Matthías sem er á leið í jólafrí á Íslandi. Leikmenn Rosenborg koma svo saman að nýju 9. janúar til undirbúnings fyrir næsta tímabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert