Birkir þarf stig gegn Arsenal

Birkir Bjarnason og félagar berjast fyrir því að komast í …
Birkir Bjarnason og félagar berjast fyrir því að komast í Evrópudeildina eftir áramót. AFP

Úrslitin ráðast í fjórum riðlum í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Í þremur riðlanna er reyndar þegar ljóst hvaða lið fara áfram í 16-liða úrslitin.

Mesta spennan er í B-riðli þar sem þrjú lið keppa um tvö laus sæti í 16-liða úrslitunum. Napoli og Benfica eru með 8 stig og Besiktas 7, en Dynamo Kiev er úr leik með 2 stig. Benfica og Napoli mætast í Portúgal í kvöld og dugar Napoli jafntefli til að komast áfram. Besiktas er öruggt áfram ef liðið vinnur Dynamo Kiev, en jafntefli myndi duga ef Benfica vinnur Napoli.

Í A-riðli keppa Birkir Bjarnason og félagar í Basel um 3. sætið, sem kæmi þeim í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar. Basel er með 2 stig líkt og Ludogorets, en Ludogorets er ofar vegna innbyrðis viðureigna. Basel þarf því að ná betri úrslitum gegn Arsenal í Sviss heldur en Ludogorets nær gegn PSG í Frakklandi.

Arsenal og PSG eru í keppni um efsta sæti A-riðils. Liðin eru bæði með 11 stig en PSG er með betri stöðu úr innbyrðis viðureignum, og er því öruggt um efsta sætið með sigri á Ludogorets.

Í C-riðli er röðun liðanna þegar ljós. Barcelona vinnur riðilinn, Manchester City endar í 2. sæti, Borussia Mönchengladbach í 3. sæti og Celtic í 4. sæti.

Í D-riðli gæti PSV Eindhoven náð 3. sæti af Rostov með sigri í leik liðanna í Hollandi. Atlético Madrid hefur þegar unnið riðilinn og Bayern München endar í 2. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert