Yfirmaður handtekinn og starfsmaður flúði land

Minningarathöfn um þá sem fórust á leikvangi Chapecoense.
Minningarathöfn um þá sem fórust á leikvangi Chapecoense. AFP

Yfirmaður LaMia, bólivíska flugfélagsins sem flutti knattspyrnuliðið Chapecoense frá Brasilíu til Kólumbíu í síðustu viku, hefur verið handtekinn vegna rannsóknar á flugslysinu við Medellin þegar 71 af 77 farþegum flugvélarinnar lét lífið. Þá hefur starfsmaður flugfélagsins flúið til Brasilíu.

Gustavo Vargas, fyrrverandi foringi í bólivíska flughernum sem kominn er á eftirlaun, er í haldi lögregluyfirvalda. Celia Castedo, starfsmaður flugfélagsins, upplýsti að hún hefði varað flugstjórann, Miguel Quiroga, áður en hann lagði af stað við því að full lítið eldsneyti væri á flugvélinni, og á mörkunum væri að það myndi duga frá suðurhluta Bólivíu til Medellín í Kólumbíu.

Hún flúði til Brasilíu og sótti um hæli þar og segir að henni hafi verið hótað og hafi sótt ofsóknum í heimalandinu. Upplýst hefur verið að flugstjórinn tilkynnti skömmu fyrir fyrirhugaða lendingu að vélin væri orðin bæði rafmagns- og eldsneytislaus.

Bólivíumenn hafa krafist þess að Brasilíumenn framselji Castedo. Ráðherrann Carlos Romero sagði að athæfi hennar væri mjög alvarlegt og hún væri að reyna að koma sér undan eðlilegum réttarhöldum.

Sex komust lífs af úr slysinu og einn þeirra, flugþjónninn Erwin Tumuri, segir að flugstjórinn hafi hætt við að millilenda í Cobija í norðurhluta Bólivíu en til stóð að bæta þar eldsneyti á flugvélina. Hann sagði við brasilísku sjónvarpsstöðina Globo TV að farþegarnir hefðu ekki verið varaðir við neinu þegar rafmangs- og eldsneytisskorturinn gerðu vart við sig.

Lið Chapecoense var á leið í fyrri úrslitaleikinn gegn Atlético Nacional í Medellín í Kólumbíu í Copa Sudamerica, næststærstu keppni félagsliða í Suður-Ameríku. Nítján af 22 leikmönnum Chapecoense sem  voru með í för fórust ásamt forráðamönnum og starfsfólki félagsins.

Atlético gaf í kjölfarið úrslitaleikina tvo þannig að Chapecoense hefur verið krýnt sem sigurvegari keppninnar í fyrsta skipti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert