Barcelona veitir Chapecoense hjálparhönd

Leikmenn Barcelona minnast þeirra sem létust í flugslysinu í Kólumbíu …
Leikmenn Barcelona minnast þeirra sem létust í flugslysinu í Kólumbíu í síðustu viku, fyrir leik sinn við Borussia Mönchengladbach á þriðjudaginn. AFP

Spænska stórveldið Barcelona hefur boðið brasilíska knattspyrnuliðinu Chapecoense að mæta á Camp Nou til að spila í Joan Gamper bikarnum á næsta ári, leiknum sem markar upphaf keppnistímabilsins hjá Börsungum ár hvert.

Nítján leikmenn Chapecoense létust í flugslysi nærri Medellín í Kólumbíu í síðustu viku. Alls lést 71 farþegi í fluginu. Brasilíska félagið er nú að hefja uppbyggingu að nýju eftir þennan harmleik og Barcelona vill leggja sitt að mörkum.

Í yfirlýsingu frá Barcelona segir að félagið vilji votta þeim sem létust í slysinu virðingu sína og muni gera ýmislegt í tengslum við leikinn í því skyni. Segir einnig að spænska félagið vilji hjálpa til við að byggja aftur upp innviði brasilíska félagsins og koma því á þann stað sem það var komið á.

Þrír leikmanna Chapecoense komust lífs af í flugslysinu og er einn þeirra, Alan Ruschel, að jafna sig eftir hryggaðgerð. „Ég vil láta alla vita að ég er á góðum batavegi og mun bráðlega snúa aftur til Brasilíu til að ljúka endurhæfingu minni þar,“ sagði Ruschel í skilaboðum til stuðningsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert