„Þetta er bara rangt“

Viðar Örn Kjartansson, leikmaður Maccabi Tel-Aviv.
Viðar Örn Kjartansson, leikmaður Maccabi Tel-Aviv. Eggert Jóhannesson

Viðar Örn Kjartansson, landsliðsmaður í knattspyrnu, ræddi við ísraelska fjölmiðla eftir 2:1 sigur Maccabi Tel-Aviv á Dundalk í Evrópudeildinni í kvöld. Fjölmiðlar spurðu hann út í Shota Arveladze, þjálfara liðsins, sem hefur verið harðlega gagnrýndur að undanförnu.

Tel-Aviv komst ekki upp úr riðli sínum í kvöld þrátt fyrir sigur en liðið endaði með 7 stig í þriðja sæti, stigi á eftir AZ Alkmaar sem vann Zenit St. Pétursborg 3:2 í hörkuleik.

Tel-Aviv hafði ekki unnið í síðustu fjórum leikjum sínum fyrir leikinn í kvöld og hefur Arveladze, þjálfari liðsins, verði gagnrýndur fyrir það. Ísraelskir fjölmiðlar spurðu Viðar út í þjálfarann og vildu þeir meina að hann væri að missa klefann. Viðar vísaði því á bug.

„Við verðum að halda áfram og hugsa um næstu leiki, það er mikilvægt. Mér finnst ég tengjast strákunum vel hérna, það er ekkert vandamál,“ sagði Viðar við ísraelska fjölmiðla.

„Þetta er bara rangt. Þjálfarinn er að gera frábæra hluti, það erum við sem þurfum að gera okkar vinnu á vellinum. Síðustu fimm leikir hjá okkur hafa verið slakir og sjálfstraustið ekki mikið, auk þess sem það hjálpar ekki þegar við erum ekki að ná að skora.“

„Vonandi komum við okkur aftur á sigurbraut. Við spiluðum nokkuð vel í dag og við vonandi spilum betur í deildinni í næstu leikjum,“ sagði hann í lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert