Fyrsti meistaratitill Seattle

Seattle Sounders fagnar meistaratitlinum í Toronto í nótt.
Seattle Sounders fagnar meistaratitlinum í Toronto í nótt. AFP

Seattle Sounders varð í nótt bandarískur meistari í knattspyrnu í fyrsta skipti með því að sigra Toronto í vítaspyrnukeppni, 5:4, eftir 0:0 jafntefli í úrslitaleik liðanna sem fram fór í kanadísku borginni Toronto.

Svissneski markvörðurinn Stefan Frei, sem áður lék með Toronto, var hetja Seattle en hann varði vel í leiknum sjálfum, sérstaklega frá Jozy Altidore í framlengingunni, og varði einnig í vítaspyrnukeppninni þar sem Toronto brást bogalistin tvisvar en Seattle einu sinni.

Hvorugt félaganna hafði áður leikið til úrslita um MLS-meistaratitilinn. Seattle vann Colorado Rapids í tveimur leikjum í undanúrslitum og Toronto lagði þá annað kanadískt lið, Montreal Impact, 7:5 samanlagt.

Seattle hafnaði í fjórða sæti Vesturdeildarinnar í sjálfri deildakeppninni, á eftir Dallas, Colorado og LA Galaxy, en sló síðan út Sporting Kansas City og Dallas áður en kom að undanúrslitaleikjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert