Hodgson tjáir sig um tapið gegn Íslandi

Roy Hodgson á hliðarlínunni í leik Englands gegn Íslandi á …
Roy Hodgson á hliðarlínunni í leik Englands gegn Íslandi á EM í Frakklandi í sumar. AFP

Roy Hodgson, fyrrum þjálfari enska karlalandsliðsins í knattspyrnu, hefur verið þögull sem gröfin um tap enska liðsins gegn Íslandi í 16 liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu karla í Nice í Frakklandi í sumar þar til nú. Hodgson fór yfir það hvernig honum leið í kjölfar tapsins gegn Íslandi í samtali við BBC. 

„Ég er ekki viss um að það sé mögulegt að jafna sig á hlutum sem valda þér jafnmiklum sárindum og tapið gegn Íslandi í sumar gerði. Ég vil ekki líkja þessu við það að missa ástvin, en tilfinningin innra með mér eftir leikinn var ekkert ósvipuð,“ sagði Hodgson þegar hann var beðinn um að lýsa hvernig honum hafi verið innanbrjósts eftir tapið gegn Íslandi.

„Ég ætla hins vegar ekki að syrgja þetta tap áfram og kýs að horfa frekar til framtíðar. Liðið er gott og á eftir að verða betra fái það tækifæri til þess. Ég vona að fólk hætti að velta þeim upp úr fyrri syndum og fari þess í stað að horfa fram á veginn. Liðið þarf að fá það hrós sem það á skilið í komandi verkefnum og við verðum að hætta að rifja þetta tap upp,“ sagði Hodgson enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert