Geta ekki boðið Messi sama og Suárez og Neymar

Lionel Messi, Luis Suárez og Neymar eru á ágætislaunum hjá …
Lionel Messi, Luis Suárez og Neymar eru á ágætislaunum hjá Barcelona. AFP

Barcelona er komið í vandræði í viðræðum sínum við Lionel Messi um nýjan langtímasamning og sem stendur getur félagið ekki boðið honum sams konar samninga og gerðir hafa verið við Luis Suárez og Neymar.

Tvímenningarnir eru sagðir vera með 24,2 milljónir evra (3,4 milljarða króna) í árslaun hjá Barcelona en Messi 22 milljónir evra (3,1 milljarð króna) en reiknað er með að Argentínumaðurinn vilji fá sambærilegan samning og félagar hans tveir.

Nú er Barcelona hins vegar í vanda vegna launaþaksins sem er í gildi í spænsku 1. deildinni en þar segir að félögin megi ekki eyða meiru en 70 prósentum af tekjum sínum í launagreiðslur.

Auk stóru samninganna við Neymar og Messi eru meðallaun leikmanna Barcelona þau hæstu í deildinni, um 6,4 milljónir evra (793 milljónir króna) á ári.

„Við viljum halda okkar bestu mönnum en verðum að forgangsraða. Bókhaldið þarf að ganga upp. Ein leiðin er að auka tekjurnar, eins og fjármálaáætlun okkar gerir ráð fyrir. Félagið vill að besti knattspyrnumaður heims verði áfram í Barcelona. Ég myndi vilja létta áhyggjunum af félagsmönnum og stuðningsmönnum en við verðum að vera skynsöm,“ sagði Oscar Grau, framkvæmdastjóri Barcelona, við spænska fjölmiðla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert