Kolbeinn óttast um ferilinn

Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson. mbl.is/Styrmir Kári

Kolbeinn Sigþórsson, landsliðsframherji í knattspyrnu, og leikmaður franska liðsins Nantes óttast um ferilinn vegna þeirra hnémeiðsla sem hann glímir við en Kolbeinn hefur verið frá vegna þeirra í tæpa fimm mánuði. Þetta segir Kolbeinn í viðtali við Vísi.is í dag.

Undanfarna daga hafa nokkuð furðulegar fréttir borist af Kolbeini þar sem forseti félagsins, Valdemar Kita, sem oft er nokkuð yfirlýsingaglaður, segist ekki hafa heyrt frá Kolbeini lengi og hafi talið að Kolbeinn væri hreinlega í felum.

Frétt mbl.is: Finna ekki Kolbein

Kolbeinn segir það af og frá og segir Andra bróður sinn og umboðsmann hafa verið í daglegu sambandi við félagið og framkvæmdastjórann Franck Kita.

Kolbeinn með boltann í leik gegn Nice á síðasta tímabili.
Kolbeinn með boltann í leik gegn Nice á síðasta tímabili. AFP

Kolbeinn segir aðspurður að það sé ákveðin óvissa um ferilinn hjá honum vegna meiðslanna en hann hefur leikið með rifu í liðþófa undanfarin þrjú ár. Eitthvað alvarlegra hafi þó gerst, líklega í deildarleik með Nantes síðasta vor sem varð til þess að hnémeiðslin versnuðu mjög og Kolbeinn stífnaði upp í hnénu.

Kolbeinn fór í aðgerð hjá tyrkneska félaginu Galatasaray þann 5. september síðastliðinn, en þangað var Kolbeinn lánaður fyrir tímabilið eftir margt tímabil hjá Nantes. Eitt af hans fyrstu verkum í Tyrklandi var að fara í aðgerð á hnénu en batinn var hægari og því fór svo að Kolbeinn náði ekki að leika einn einasta leik með liðinu og á endanum var samningi hans við félagið rift.

„Hnéð bólgnaði upp og ég átti erfitt með gang. Það tók langan tíma að ná bólgunum úr mér og reynt að flýta fyrir því með alls konar sprautumeðferðum til að losa út vökva. En hann kom alltaf aftur,” sagði Kolbeinn við Vísi.

„Ég kom aftur til Tyrklands 9. desember. Þá var mér tilkynnt að ef ég myndi ekki ná mér góðum innan þriggja vikna þá yrði samningi mínum rift,“ sagði Kolbeinn sem fór í myndatöku á jóladag þar sem það var á endanum staðfest að hann myndi ekki geta staðist kröfur félagsins. Samningnum var rift.

Kolbeinn Sigþórrson í búningi Nantes.
Kolbeinn Sigþórrson í búningi Nantes. AFP

Kolbeinn reynir þó að líta björtum augum á framhaldið en hann fór í aðgerð þann 5. september.

„Ég vona að aðgerðin heppnist vel og að ég geti spilað aftur sem allra fyrst. En ég er sjálfur mjög áhyggjufullur yfir þessari stöðu enda komnir fimm mánuðir frá fyrri aðgerðinni og tíminn tifar. Auðvitað hef ég hugleitt það [að ferillinn sé í hættu], enda búinn að vera úti í 4-5 mánuði og mikið einn,“ sagði Kolbeinn en hans bíður mögulega önnur aðgerð. Samþykki félagsins er það eina sem stendur í vegi fyrir aðgerðinni sem skárri kosturinn af tveimur.

„Besta lausnin er að byggja hnéð upp án aðgerðar. Styrkja það og liðböndin, losa um það og fara í sprautumeðferðir. Það hef ég reynt. Ég hef gert allt sem ég hef getað gert. En niðurstaðan er sú að ég er ekki orðinn betri. Það er ekki ákjósanlegt að fara í aðra aðgerð en óvissan yrði líka mikil ef ég færi ekki því ég veit ekki hvenær ég mun jafna mig,” sagði Kolbeinn Sigþórsson.

Kolbeinn í treyju lék á endanum aldrei með Galatasaray.
Kolbeinn í treyju lék á endanum aldrei með Galatasaray. Ljósmynd/twitter
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert