Breyta reglum um erlenda leikmenn

John Obi Mikel er kominn til Kína.
John Obi Mikel er kominn til Kína. AFP

Kínverska knattspyrnusambandið hefur sett nýjar reglur sem snúa að erlendum leikmönnum í kínversku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. 

Tímabilið í Kína hefst núna í mars og er deildin þar í landi að verða æ vinsælli með komu leikmanna eins og Oscar og John Obi Mikel frá Chelsea. 

Miklum fjáhæðum hefur verið eytt í erlenda leikmenn af kínverskum félögum undanfarið og voru einhverjir farnir að hafa áhyggjur af þróun mála þar í landi, þar sem kínverskir leikmenn gætu fengið minna að spreyta sig og hefði það því slæm áhrif á kínverska landsliðið.

Til að létta á áhyggjum þeirra hafa nú verið settar nýjar reglur um hversu marga erlenda leikmenn hvert lið má vera með á sínum snærum. 

Hvert lið má nú aðeins vera með þrjá erlenda leikmenn á vellinum í einu og aðeins fimm í leikmannahópnum fyrir hvern leik auk þess að lið verða að nota tvo kínverska leikmenn sem eru 23 ára eða yngri. Áður máttu vera fimm erlendir leikmenn í hverju liði en einn þeirra varð að vera frá öðru Asíuríki. Eins og áður mega liðin aðeins vera með markmenn frá Kína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert