Kolbeinn farinn aftur til Nantes

Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kolbeinn Sigþórsson, landsliðsframherji í knattspyrnu og leikmaður Nantes í Frakklandi, fór í dag á ný til Frakklands þar sem hann hittir fyrir læknateymi félagsins.

Samkvæmt heimildum mbl.is frá Frakklandi mun hann gangast þar undir læknisskoðun á morgun, en það á eftir að ákveða hvort eigi að senda hann í aðra aðgerð. Andri Sigþórsson, bróðir og umboðsmaður hans, staðfesti við mbl.is í dag að kíkja eigi betur á hann og meta stöðuna á meiðslunum.

„Ætli verði ekki tekin ákvörðun fljótlega um hvað þurfi að gera, í samráði við félagið hans. Hvort hann þurfi að fara í aðra aðgerð, eða hvað þurfi til svo hann komist af stað aftur. Þetta er pínu óþægileg staða að vera í,“ sagði Andri við mbl.is í dag.

Kolbeinn hefur ekki spilað síðan í ágúst vegna meiðsla í hné og var lánssamningi hans við Galatasaray í Tyrklandi rift á dögunum af þeim sökum. Sjálfur sagðist Kolbeinn óttast um ferilinn.

Franska íþrótta­dag­blaðið L'Equipe fullyrti fyrir helgi að forráðamenn Nantes viti ekkert um Kolbein eftir að hann yfirgaf Galatasaray. „Kol­beinn Sigþórs­son finnst ekki“ sagði í fyr­ir­sögn blaðsins.

Andri sagði þann fréttaflutning ekki réttan í samtali við mbl.is í síðustu viku. Það sem liggur fyrir núna er að taka ákvörðun hvort og þá hvenær Kolbeinn fari á ný undir hnífinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert