Sverrir Ingi seldur til Spánar

Ari Freyr Skúlason og Sverrir Ingi Ingason á æfingu Lokeren. …
Ari Freyr Skúlason og Sverrir Ingi Ingason á æfingu Lokeren. Nú skiljast leiðir hjá þeim félögum. Ljósmynd/Kristján Bernburg

Belgíska knattspyrnufélagið Lokeren hefur selt íslenska landsliðsmiðvörðinn Sverri Inga Ingason til Granada, sem leikur í efstu deild á Spáni.

Samkvæmt heimildum mbl.is skrifar Sverrir Ingi undir samning við spænska félagið í dag en hann er í flugi á leið til Granada. Heimildir mbl.is herma að kaupverðið nemi 1,9 milljónum evra, jafnvirði rúmlega 230 milljóna króna.

Granada er í 19. og næstneðsta sæti spænsku 1. deildarinnar, með 10 stig eftir 18 leiki. Liðið er sex stigum frá næsta örugga sæti.

Granada hefur leikið fjóra leiki í röð án sigurs í spænsku 1. deildinni en næsti leikur liðsins er í Barcelona í hádeginu á laugardag þegar liðið mætir Espanyol.

Sverrir Ingi er 23 ára gamall og hefur leikið með Lokeren frá árinu 2014, eftir að hann kom til félagsins frá Viking í Noregi. Hann er uppalinn hjá Breiðabliki og lék tvær heilar leiktíðir með liðinu áður en hann fór í atvinnumennsku.

Lokeren festi í gær kaup á enska framherjanum Gary Martin sem félagið keypti frá Víkingi Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert