Keypti sér þjálfarastöðu á Spáni

Skotinn John Clarkson hefur gaman að því að þjálfa knattspyrnulið. …
Skotinn John Clarkson hefur gaman að því að þjálfa knattspyrnulið. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AFP

Skoski auðjöfurinn John Clarkson hefur samið um að greiða spænsku knattspyrnufélagi 150.000 evrur gegn því að hann fái að þjálfa liðið, sem leikur í 3. efstu deild Spánar.

Liðið sem um ræðir heitir Tudelano og er í 9. sæti í riðli 1 í spænsku 3. deildinni. Félagið var stofnað árið 1935 og er í eigu 800-900 stuðningsmanna þess. Félagið hefur ekki átt í teljandi fjárhagsvandræðum en var gert að greiða tvær sektir vegna vangoldinna skatta sem gæti hafa ráðið því að tilboði Clarkson var tekið. Þetta kemur fram í frétt AS um málið.

Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem Clarkson kaupir sér þjálfarastöðu hjá spænsku félagi. Hann hefur þjálfað þrjú lið og stýrði einu þeirra, Catarroja, til umspils um sæti í 2. deild fyrir þremur árum. Þess má geta að liðið féll úr keppni gegn Tudelano.

Clarkson mun greiða Tudelano 50.000 evrur á þessari leiktíð og 100.000 evrur á næstu leiktíð. Félagið var í leit að nýjum þjálfara eftir að Sergio Amatriain var sagt upp um jólin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert