Sjötti Íslendingurinn í spænsku deildinni

Sverrir Ingi Ingason leikur í treyju númer 25 hjá Granada.
Sverrir Ingi Ingason leikur í treyju númer 25 hjá Granada. Ljósmynd/Granada

Sverrir Ingi Ingason er í byrjunarliði Granada sem er að hefja leik gegn Espanyol á útivelli í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu og er þar með orðinn sjötti Íslendingurinn sem spilar í efstu deild á Spáni.

Granada keypti Sverri af Lokeren í vikunni og hann fer beint í lið eftir að hafa aðeins æft með liðinu í þrjá daga.

Aðrir sem hafa leikið í deildinni eru eftirtaldir:

Pétur Pétursson lék fyrstur Íslendinga í spænsku 1. deildinni með Hércules frá Alicante tímabilið 1985-86.

Þórður Guðjónsson lék með Las Palmas frá Kanaríeyjum í deildinni 2000-2002.

Jóhannes Karl Guðjónsson lék með Real Betis frá Sevilla í deildinni 2001-2003.

Eiður Smári Guðjohnsen lék með Barcelona í deildinni 2006-2009.

Alfreð Finnbogason lék með Real Sociedad frá San Sebastián í deildinni 2014-2015 og var í röðum félagsins til 2016.

Þá hafa tveir Íslendingar leikið í næstefstu deild Spánar. Magnús Bergs með Racing Santander árið 1984 og Diego Jóhannesson sem hefur verið leikmaður Real Oviedo frá 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert