Alfreðs enn saknað en jákvæður tónn

Alfreð Finnbogason var sjóðheitur með íslenska landsliðinu í haust en …
Alfreð Finnbogason var sjóðheitur með íslenska landsliðinu í haust en meiddist í leik gegn Tyrkjum í október. mbl.is/Golli

Enn er óljóst hvenær Alfreð Finnbogason, landsliðsframherji í knattspyrnu, getur snúið aftur til keppni eftir meiðsli sem hafa hrjáð hann síðan í október.

Alfreð fór meiddur af velli í sigri á Tyrkjum í undankeppni HM í október, eftir að hafa skorað þriðja mark sitt í þremur leikjum í undankeppninni. Erfitt hefur reynst að greina alvarleika meiðslanna og í frétt þýska miðilsins Kicker í dag segir að ekki sé vitað hvenær Alfreð geti spilað með liði sínu Augsburg á nýjan leik.

Alfreð hefur síðustu tvær vikur verið í meðferð hjá sérfræðingi í Katar. „Hann snýr bráðum aftur hingað en við verðum að bíða og sjá hvort hann geti farið að æfa með liðinu,“ sagði Stefan Reuter, framkvæmdastjóri Augsburg.

Reuter sagði að Alfreð hefði sjálfur verið mjög jákvæður síðustu daga en það verður að koma í ljós hvenær Alfreð getur aftur farið að skora mörk fyrir þýska liðið, sem þarf svo sannarlega á því að halda. Augsburg er í 13. sæti af 18 liðum í þýsku 1. deildinni en hefur aðeins skorað 13 mörk í 17 leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert