Jóhann Berg fór meiddur af velli

Jóhann Berg Guðmundsson í leik með Burnley gegn Manchester City …
Jóhann Berg Guðmundsson í leik með Burnley gegn Manchester City fyrr á leiktíðinni. AFP

Jóhann Berg Guðmundsson haltraði meiddur af velli eftir tæplega 20 mínútna leik í leik Burnley og Lincoln City, en liðin eigast við í 16-liða úrslitum enska bikarkeppninnar þessa stundina. 

Jóhann Berg tognaði aftan í læri í leik Burnley gegn Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í lok nóvember á síðasta ári og meiðslin aftan í læri tóku sig upp á nýjan leik í janúar á þessu ári. 

Jóhann Berg var tæklaður hressilega í leiknum í dag, en hann fékk slink á ökklann og gat ekki haldið leik áfram. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir íslenska landsliðsmanninn sem hefur verið afar óheppinn með meiðsli á yfirstandandi leiktíð.  

Ísland leikur gegn Kosóvó í undankeppni HM 2018 ytra föstudaginn 24. mars og það er vonandi að Jóhann Berg verði búinn að ná sér í tæka tíð fyrir þann leik. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert