Sampaoli væri fullkominn arftaki Enrique

Jorge Sampaoli, þjálfari Sevilla.
Jorge Sampaoli, þjálfari Sevilla. AFP

Sparkspekingar á Spáni hafa velt vöngum yfir framtíð Luis Enrique, þjálfara Barcelona, eftir óvænt 4:0-tap liðsins gegn PSG í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á þriðjudagskvöldið síðastliðið.

Auk þess að vera í slæmri stöðu í einvígi sínu við PSG stendur Barcelona einnig illa að vígi í baráttu sinni við erkifjanda sinn, Real Madrid, um spænska meistaratitilinn. Real Madrid hefur eins stigs forskot á Barcelona á toppi deildarinnar og þar að auki tvo leiki til góða.

Guillem Balague, sérfræðingur Skysports um spænsku knattspyrnuna, telur að stjórn Barcelona sé farin að leggja drög að lista yfir líklega arftaka Enrique, en samningur hans við félagið rennur út í sumar. 

„Ég tel að stjórn Barcelona sé nú þegar farin að huga að því hver muni taka við að Enrique i sumar. Fyrir leikinn gegn PSG var staða Enrique sterk í viðræðum hans við Barcelona um nýjan samning. Eftir leikinn er staðan hins vegar gjörbreytt,“ sagði Balague í pistli sínum á Skysports.

„Leikmenn á borð við Sergio Busquets og Andres Iniesta gagnrýndu leikaðferð liðsins eftir tapið gegn PSG og það sýnir að Enrique hefur ekki fullan stuðning leikmanna á bak við sig. Það eru leikmenn innan leikmannahóps Barcelona sem telja að þörf sé á ferskum vindum á Nou Camp í sumar,“ sagði Balague enn fremur.

Balague telur að argentínski knattspyrnustjórinn Jorge Sampaoli, sem er við stjórnvölinn hjá Sevilla, sé efstur á blaði hjá stjórn Barcelona ákveði hún að gera breytingar í brúnni á áhöfn sinni.  

„Juanma Lillo, aðstoðarmaður Sampaoli, átti stóran þátt í því að þróa Pep Guardiola sem þjálfara. Hugmyndafræði þeirra Sampaoli og Lillo um það að spila boltanum ávallt úr erfiðum stöðum og láta boltann ganga hratt á milli manna fellur vel að hugmyndafræði þeirra sem stjórna hjá Barcelona,“ sagði Balague í rökstuðningi sínum um forskot Sampaoli á aðra þjálfara á listanum hjá stjórn Barcelona.

„Neymar hafði áhuga á að Sampaoli tæki við brasilíska landsliðinu á sínum tíma og þeir hafa snætt málsverði saman í Barcelona. Lionel Messi hefur einnig látið hafa það eftir sér að hann kunni vel við Sampaoli. Þá myndi Luis Suarez einnig styðja það heilshugar að Sampaoli myndi taka við Barcelona,“ sagði Balague máli sínu til frekari stuðnings. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert