Hvern vill Lars fá sem aðstoðarmann?

Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari Norðmanna.
Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari Norðmanna. AFP

Lars Lagerbäck, nýráðinn þjálfari norska karlalandsliðsins í knattspyrnu, á enn eftir að fá sér aðstoðarmann en það skýrist á næstu dögum hver það verður.

Lagerbäck sagði þegar hann var ráðinn landsliðsþjálfari að aðstoðarmaður hans yrði norskur og það hefur ekkert breyst.

„Við höfum rætt fjóra til fimm aðila og við vonumst til að aðstoðarþjálfarinn verði klár í síðasta lagi í byrjun næstu viku,“ sagði Lagerbäck við norska ríkissjónvarpið.

Norskir fjölmiðlar hafa nefnt menn eins og Per Joar Hansen, Steinar Nilsen, Kjetil Rekdal, Brede Hangeland og Leif Gunnar Smerud sem gætu orðið hægri hönd Svíans.

„Suma af þessum mönnum þekki ég ekki. Ég held samt að ég hafi heilsað þeim öllum en ég er ekki viss. Ég hef verið mikið í Noregi í gegnum árin,“ segir Lars.

Spurður hver sé hans óskakandítat segir Lars;

„Það myndu vera Roland Andersson sem ég hef unnið með síðan 1970 eða Tommy Söderberg. Þeir eru efstir á óskalistanum, sagði Lars við NRK í léttum tón.

„En það verður ekki. Aðstoðarmaður minn verður norskur þjálfari og það eru margar góðar ástæður fyrir því,“ sagði Svíinn.

Andersson var í þjálfarateymi íslenska landsliðsins þegar Lars var við stjórnvölinn og Söderberg og Lars stýrðu sænska landsliðinu saman í mörg ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert