Missti fótinn en ætlar aftur í markið

Jackson Ragnar Follmann tók við Suður-Ameríkubikarnum sem Chapecoense fékk þar …
Jackson Ragnar Follmann tók við Suður-Ameríkubikarnum sem Chapecoense fékk þar sem væntanlegir mótherjar liðsins í úrslitaleikjunum sem aldrei fóru fram gáfu þá. AFP

Jackson Ragnar Follmann, markvörður brasilíska knattspyrnuliðsins Chapecoense sem lifði af flugslysið í Kólumbíu í lok nóvember, ætlar sér að spila fótbolta á ný enda þótt taka hafi þurft af honum annan fótinn eftir slysið.

Follmann, sem er 24 ára gamall, er einn af þeim sex sem komust lífs af úr slysinu en 71 farþegi í vélinni fórst, þar á meðal flestir liðsfélaga hans. Follmann sagði í viðtali við brasilísku sjónvarpsstöðina Fantastico að hann hefði vaknað í flugvélinni eftir að hún brotlenti, í kulda og myrkri, og hrópað án afláts á hjálp ásamt hinum sem lifðu af brotlendinguna skammt fyrir utan borgina Medellín.

Fjórum dögum síðar komst hann aftur til meðvitundar á sjúkrahúsi í Medellín og komst að því að búið væri að taka annan fótinn af honum.

„Ég verð alltaf íþróttamaður og ég verð alltaf markvörður Chapecoense. Ég sakna þess að vera ekki að spila þegar ég sé Chapecoense eða eitthvert annað lið spila í sjónvarpinu. En allt hefur sínar ástæður, ég þakka guði fyrir að gefa mér annað tækifæri og ég horfi til framtíðarinnar,“ segir Follmann, sem er kominn með gervifót og hyggst spila fótbolta með liði fatlaðra á heimaslóðum sínum.

Jackson Ragnar Follmann heilsar leikmönnum Brasilíu og Kólumbíu fyrir vináttulandsleik …
Jackson Ragnar Follmann heilsar leikmönnum Brasilíu og Kólumbíu fyrir vináttulandsleik þjóðanna í lok janúar þar sem ágóðinn rann til þeirra sem áttu um sárt að binda eftir flugslysið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert