Kom í framkvæmd módern þjálfarastíl

Ólafur H. Kristjánsson þjálfari
Ólafur H. Kristjánsson þjálfari mbl.is/Ómar Óskarsson

Þrátt fyrir sex töp í röð hjá lærisveinum Ólafs Kristjánssonar í Randers var þjálfaranum samt sem áður hrósað af yfirmanni íþróttamála eftir 2:0 tap liðsins gegn Midtjylland í dönsku úrvalsdeildinni í gær.

„Krísan skaðar Randers“ var fyrirsögn í umfjöllun BT um leikinn í gær en í samtali við blaðið eftir leik hrósaði Ole Nielsen, yfirmaður íþróttamála hjá félaginu, Ólafi og hans þjálfarateymi.

„Ólafur Kristjánsson og hans aðstoðarmenn hafa staðið sig mjög vel og hafa komið í framkvæmd módern þjálfarastíl. Við tökum því alvarlega að úrslitin hafa ekki verið upp á marga fiska í deildinni undanfarið en þjálfarateymið er sannarlega ekki í skotlínunni,“ sagði Nielsen og benti frekar á þá staðreynd að margir leikmanna liðsins hafi orðið fyrir meiðslum.

Randers er í fimmta sæti deildarinnar en yfirlýst markmið félagsins er að verða í einu af efstu sex sætunum sem tryggir liðinu rétt til að leika í úrslitakeppninni um danska meistaratitilinn.

Tapið í gær var fjórði leikurinn sem liðinu tekst ekki að skora, en landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson leikur með liðinu og stóð á milli stanganna í gær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert