Albert leikmaður umferðarinnar

Albert Guðmundsson fagnar einu af þremur mörkum sínum gegn Walwijk.
Albert Guðmundsson fagnar einu af þremur mörkum sínum gegn Walwijk. Ljósmynd/Twitter

Albert Guðmundsson leikmaður PSV var í dag útnefndur leikmaður umferðarinnar í hollensku B-deildinni í knattspyrnu fyrir frammistöðu hans í leiknum gegn Waalwjik á föstudagskvöldið.

Albert skoraði þrennu í leiknum og fullkomnaði frábæra viku en nokkrum dögum áður skoraði hann tvö mörk í sigurleik á móti Breda.

Albert hefur skorað 9 mörk í 23 leikjum sínum með varaliði PSV sem spilar í B-deildinni og er næstmarkahæsti leikmaður liðsins. Albert er að sjálfsögðu í liði umferðarinnar og það aðra vikuna í röð. Með frammistöðu sinni með varaliðinu í vetur er Albert farinn að banka á dyr aðalliðsins og það kæmi ekki á óvart ef Phillip Cocu þjálfari liðsins gæfi honum tækifæri með því á næsta tímabili og kannski fyrr.

Albert Guðmundsson er 19 ára gamall, hefur leikið með öllum yngri landsliðunum og lék sinn fyrsta A-landsleik í janúar þegar Íslendingar höfðu betur gegn Kína, 2:0, á æfingamóti í Kína. Albert lék síðustu mínúturnar í þeim leik.

Albert er af góðu knattspyrnukyni. Faðir hans er hinn „heimsfrægi“ knattspyrnulýsandi Guðmundur Benediktsson og móðir hans er Kristbjörg Ingadóttir. Bæði áttu þau góðu gengi að fagna á sínum fótboltaferli og léku bæði með landsliðinu. Ingi Björn Albertsson, einn af markahæstu leikmönnum efstu deildar karla frá upphafi, er afi Alberts og goðsögnin Albert Guðmundsson er langafi hans. Afi hans og faðir Guðmundar, Benedikt Guðmundsson, lék enn fremur með meistaraflokki ÍBA á Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert