Yrði draumur að spila með einu af þessum stóru

Gylfi Þór.
Gylfi Þór. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson segir að það verði erfitt að hafna boði frá stóru liði í sumar ef það kemur en eftir frábært tímabil með Swansea á leiktíðinni má búast við því að lið falist eftir honum.

Gylfi hefur á undanförnum vikum verið orðaður við lið eins og Everton og West Ham og á dögunum lét Paul Clement knattspyrnustjóri Swansea hafa eftir sér að Gylfi gæti vel spilað með liðum á borð við Real Madrid, Bayern München og Chelsea en Clement hefur starfað hjá öllum þessum líðum.

„Jú auðvitað var þetta mikið hrós,“ sagði Gylfi við vefmiðilinn goal.com. „Kannski var bara að gefa mér sjálfstraust en auðvitað yrði draumur að spila með einu af þessum stórum liðum. Vonandi ef ég held áfram að gera það gott með Swansea og íslenska landsliðinu þá get í framtíðinni spilað með stóru liði en ég er samt að njóta þess að vera í lykilhlutverki með mínu liði,“ segir Gylfi Þór, sem verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu gegn Kósóvó í Albaníu á föstudagskvöldið.

Eftir gott gengi Swansea hefur liðið nú tapað tveimur leikjum í röð og það á móti liðunum sem eru í botnbaráttunni við Swansea í ensku úrvalsdeildinni.

„Úrslitin í síðustu tveimur leikjum hafa ekki verið eins og við vonuðumst til. Við töpuðum tveimur mjög mikilvægum leikjum en það er mikið enn eftir af tímabilinu,“ segir Gylfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert