Skörð höggvin í lið Íra

Martin O'Neill landsliðsþjálfari Íra.
Martin O'Neill landsliðsþjálfari Íra. AFP

Skörð hafa verið höggvin í írska landsliðshópinn í knattspyrnu líkt og þann íslenska en þjóðirnar eigast við í vináttuleik á Aviva Stadium í Dublin annað kvöld.

Írar gerðu markalaust jafntefli við Wales í undankeppni HM á föstudagskvöldið þar sem bakvörðurinn Seamus Coleman fótbrotnaði og heimsóttu írsku landsliðsmennirnir félaga sinn á sjúkrahúsið um helgina þar sem hann gekkst undir aðgerð.

John O’Shea (Sunderland), James McCarthy (Everton) og þeir Glenn Whelan og Jon Walters, leikmenn Stoke, eru allir komnir til sinna félaga þar sem þeir eiga við meiðsli að stríða. Martin O'Neill landsliðsþjálfari Íra hefur kallað á Stephen Gleeson leikmann Birmingham inn í hópinn og þá kemur Robbie Brady úr Burnley aftur inn í hópinn eftir að hafa tekið út leikbann og hann verður fyrirliði Íra í leiknum annað kvöld.

Gylfi Þór Sigurðsson, Arnór Ingvi Traustason og Emil Hallfreðsson drógu sig allir út úr íslenska landsliðshópnum á laugardaginn vegna meiðsla og bættist Arnór Smárason inn í hópinn í þeirra stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert