Arnór Ingvi úr leik næstu vikurnar

Arnór Ingvi í baráttunni í leiknum gegn Kósóvó á föstudagskvöldið.
Arnór Ingvi í baráttunni í leiknum gegn Kósóvó á föstudagskvöldið. AFP

Arnór Ingvi Traustason, leikmaður austurríska úrvalsdeildarliðsins Rapid Vín, verður frá keppni næstu vikurnar vegna meiðslanna sem hann varð fyrir í leik Íslands og Kósvó í undankeppni HM í Albaníu á föstudagskvöldið.

Arnór Ingvi þurfti að fara af velli á 72. mínútu vegna meiðslanna og hann var einn þriggja leikmanna íslenska liðsins sem neyddist til að draga sig út úr hópnum fyrir vináttuleikinn á móti Írum í Dublin í kvöld. Hinir tveir voru Gylfi Þór Sigurðsson og Emil Hallfreðsson.

Arnór Ingvi sagði í samtali við mbl.is í morgun að hann hafi farið í myndatöku í gær þar sem komið hafi í ljós stærra beinmar í hnénu en hann glímdi við meiðsli á sama hné fyrir nokkru síðan sem hélt honum frá keppni með Rapid Vín í nokkrum leikjum. Arnór Ingvi segist þurfa að hvíla næstu tvær til þrjár vikurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert