Messi í fjögurra leikja bann

Lionel Messi.
Lionel Messi. AFP

Lionel Messi fyrirliði argentínska landsliðsins í knattspyrnu var nú rétt í þessu úrskurðaður í fjögurra leikja bann af aganefnd Alþjóða knattspyrnusambandsins.

Messi lét aðstoðardómarann heyra það og notaði afar ljót orð í 1:0 sigri Argentínu gegn Síle í síðustu viku þar sem hann skoraði sigurmarkið.

Knattspyrnusamband Suður-Ameríku tók málið til skoðunar og vísaði því til FIFA sem kvað upp úrskurð sinn í dag aðeins sex klukkutímum fyrir leik Argentínumanna gegn Bólivíu.

Messi var auk þess sektaður um 10 þúsund svissneskra franka en sú upphæð jafngildir 1,1 milljón króna.

Argentínumenn eru í þriðja sæti í Suður-Ameríkuriðlinum. Fjögur efstu liðin tryggja sér sæti í úrslitakeppnina í Rússlandi á næsta ári en liðið sem endar í 5.sætinu fer í umspil gegn liði úr Eyjaálfu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert