Ronaldo fær flugvöll nefndan eftir sér

Cristiano Ronaldo skoraði á heimaslóðum í kvöld.
Cristiano Ronaldo skoraði á heimaslóðum í kvöld. AFP

Cristiano Ronaldo, besti knattspyrnumaður heims, mun verða heiðraður á ansi óvenjulegan hátt á morgun þegar heill alþjóðaflugvöllur verður nefndur eftir honum.

Um er að ræða flugvöllinn á eyjunni Madeira, þaðan sem Ronaldo kemur. Á eyjunni fór einmitt fram leikur Portúgals og Svíþjóðar í kvöld sem endaði með dramatískum sigri Svía, en á morgun verður athöfn á eyjunni þar sem nýja nafnið verður afhjúpað.

Stjórnmálamenn á eyjunni voru margir hverjir á móti því að breyta nafninu á flugvellinum, sem áður hét bara Madeira-flugvöllurinn. Á eyjunni er nú þegar stytta og safn tileinkað Ronaldo, auk þess sem heil hótelkeðja á staðnum heitir eftir honum.

„Stundum hefur þjóðarstoltið skammtímaminni, en Madeira hefur það ekki,“ sagði forseti heimastjórnar Madeira og gaf lítið fyrir gagnrýni sem heyrðist frá sumum stjórnmálamönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert