Sigur á Evrópumeisturunum dugði Söru ekki

Sara Björk Gunnarsdóttir rís hér hæst í fagnaðarlátum Wolfsburg, sem …
Sara Björk Gunnarsdóttir rís hér hæst í fagnaðarlátum Wolfsburg, sem er úr leik í Meistaradeildinni. Ljósmynd/vfl-wolfsburg.de

Sara Björk Gunnarsdóttir og liðsfélagar hennar í þýska liðinu Wolfsburg féllu í kvöld úr leik í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu þrátt fyrir sigur á Evrópumeisturum Lyon, 1:0, á útivelli í síðari leik liðanna í einvíginu.

Wolfsburg tapaði fyrri leiknum á heimavelli í síðustu viku 2:0, og því var við ramman reip að draga fyrir leikinn í kvöld. En átta mínútum fyrir leikslok kom Caroline Hansen þýska liðinu yfir með marki úr vítaspyrnu og hleypti spennu í leikinn, en Lyon hélt út og 1:0-sigur Wolfsburg dugði því ekki.

Sara Björk var í byrjunarliði Wolfsburg og krækti sér í gult spjald á 65. mínútu leiksins, en hún var tekin af velli á 72. mínútu.

Þá sat Andrea Thorisson allan tímann á bekknum hjá sænska liðinu Rosengård sem tapaði fyrir Barcelona, 2:0, í síðari einvígisleik liðanna og fór Barcelona áfram samanlagt 3:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert