Alfreð gæti byrjað gegn Bayern

Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Ljósmynd/Twitter-síða Augsburg

Alfreð Finnbogason er byrjaður að æfa á fullu með þýska knattspyrnuliðinu Augsburg en landsliðsmaðurinn hefur verið frá keppni síðan hann meiddist í landsleiknum á móti Tyrkjum þann 9. október.

„Hann gæti verið í leikmannahópnum á móti Bayern München um helgina og jafnvel í byrjunarliðinu,“ sagði Manuel Baum þjálfari Augsburg á fréttamannafundi í dag en Alfreð lék síðast með liði Augsburg í deildinni í 6. umferðinni þann 30. september. Alfreð sat fundinn með þjálfara sínum.

„Ég er búinn að eiga þrjár góðar vikur og mér líður vel. Nú verða leikirnir mikilvægir. Við erum í fallbaráttu en það er allt í lagi því við höfum verið í henni áður. Bayern er með í það minnsta tvo heimsklassa leikmenn í hverri stöðu og það skiptir engu máli hver spilar fyrir liðið,“ sagði Alfreð.

Augsburg er í 14.sæti deildarinnar með 29 stig en Hamburg, sem er í þriðja neðsta sætinu hefur 27 stig. Tvö neðstu liðin falla úr deildinni og þar standa Ingolstadt og Darmstad illa að vígi með 19 og 15 stig. Bayern München trónir hins vegar á toppi deildarinnar með 62 stig og hefur 13 stiga forskot á Leipzig sem er í öðru sætinu.

Bayern München og Augsburg eigast við á Allianz vellinum í München á laugardaginn og hefst rimma liðanna klukkan 13.30 að íslenskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert