Var þrisvar greind vitlaust

Dagný Brynjarsdóttir í leik gegn Dönum á Kínamótinu í október.
Dagný Brynjarsdóttir í leik gegn Dönum á Kínamótinu í október. Ljósmynd/KSÍ

Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, er bjartsýn á að vera búin að fá bót meina sinna eftir talsverða fjarveru vegna meiðsla og vonast til að taka þátt í öðrum leik Portland Thorns í bandarísku atvinnudeildinni.

Dagný sagði við mbl.is að hún myndi ekki spila gegn Orlando Pride í fyrstu umferðinni á laugardaginn en Portland hefur þá keppni á sínum sterka heimavelli.

„Nei, það var fyrst í þessari viku sem ég fékk að byrja að æfa með liðinu og ég hef verið látin fara mjög rólega af stað. Ég verð þó væntanlega í leikmannahópnum á laugardaginn og fæ að vera með í upphituninni en fer ekkert inn á.

Ef allt gengur að óskum fæ ég væntanlega að spila einhverjar mínútur í næsta leik þar á eftir,“ sagði Dagný en Portland sækir heim lið North Carolina Courage í annarri umferð deildarinnar laugardaginn 22. apríl.

Dagný hefur glímt við meiðsli í liðböndum við mjaðmagrindina og spjaldhrygginn og það hefur tekið talsverðan tíma. Undirbúningstímabilið fór því nánast í súginn hjá henni. Dagný mætti til leiks með íslenska landsliðinu í Algarve-bikarnum í byrjun mars en gat aðeins tekið þátt í einum leik af fjórum, gegn Japan, og spilaði þá sinn 70. landsleik. Hún var ekki með í vináttuleikjunum í Slóvakíu og Hollandi á dögunum.

Dagný Brynjarsdóttir fagnar marki fyrir Portland á síðasta ári.
Dagný Brynjarsdóttir fagnar marki fyrir Portland á síðasta ári. Ljósmynd/portlandthorns.com

„Ég hef fengið fjögur plön síðan ég meiddist en engin þeirra hafa gengið upp og ég hef alltaf orðið fyrir jafnmiklum vonbrigðum. Nú reyni ég að taka fyrir einn dag í einu. Ég var þrisvar greind vitlaust og það sást aldrei neitt á myndum en ég er nokkuð viss um að vera á réttu róli með þetta núna. Ég hefði líklegast getað beðið í nokkrar vikur eða mánuði í viðbót og þá hefði þetta lagast smám saman, en tímabilið hérna er að byrja og svo er stutt í EM, þannig að það hefur allt verið reynt til þess að flýta fyrir batanum,“ sagði Dagný.

Hún er að hefja sitt annað tímabil með Portland Thorns sem vann hina geysisterku NWSL-deild á síðasta tímabili en tapaði síðan í undanúrslitunum um meistaratitilinn. Hún spilaði 18 af 22 leikjum liðsins í deildinni og skoraði 5 mörk.

Dagný er bjartsýn fyrir hönd liðsins fyrir komandi tímabil. „Við erum með nánast sama hóp og í fyrra og eftir að hafa spilað saman í eitt ár ættum við að vera sterkari núna,“ sagði Dagný en meðal liðsfélaga hennar eru nokkrar af bestu knattspyrnukonum heims, svo sem Amandine Henry frá Frakklandi, Christine Sinclair frá Kanada, bandarísku landsliðskonurnar Meghan Klingenberg, Tobin Heath og Lindsey Horan sem og Nadia Nadim, helsti markaskorari danska landsliðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert