Rashford skaut United í undanúrslitin

Anthony Martial og Michael Carrick fagna hetjunni Marcus Rashford eftir …
Anthony Martial og Michael Carrick fagna hetjunni Marcus Rashford eftir sigurmark hans í kvöld. AFP

Manchester United tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu, en þurfti framlengingu til þess að útkljá rimmu sína við Anderlect í 8-liða úrslitunum. Eftir að staðan hafði verið 1:1 eftir venjulegan leiktíma reyndist Marcus Rashford hetja United með marki í framlengingunni.

United komst yfir snemma leiks þegar Henrikh Mkhitaryan skoraði eftir sendingu frá Marcus Rashford í skyndisókn. Staðan 1:0 fyrir United og 2:1 samanlagt. Anderlecht jafnaði hins vegar metin á 32. mínútu eftir þunga sókn. Það var Sofiane Hanni sem skoraði eftir að frákastið barst til hans eftir sláarskot utan teigs. Staðan 1:1 í hálfleik.

Og þannig var hún raunar líka eftir venjulegan leiktíma, þótt United hafi sótt stíft eftir hlé og Anderlecht átt sínar rispur sömuleiðis. Rétt fyrir lokaflautið varð United hins vegar fyrir áfalli þegar Zlatan Ibrahimovic meiddist á hné og fór af velli, en atvikið leit alls ekki vel út.

Ekkert var skorað í fyrri hluta framlengingarinnar, en á 107. mínútu braut Marcus Rashford ísinn. Marouane Fellaini skallaði þá boltann til hans í teignum, framherjinn ungi lagði hann vel fyrir sig og skoraði. Staðan 2:1 fyrir United og 3:2 samanlagt.

Það reyndist sigurmark leiksins og United er því komið áfram í undanúrslit eins og Celta Vigo, Ajax og Lyon. Önnur úrslit kvöldsins má sjá hér að neðan.

Genk – Celta Vigo (2:3) 1:1. Celta Vigo áfram, samanlagt 4:3.
Besiktas – Lyon (1:2) 2:1. Lyon vann í vítaspyrnukeppni, 7:6.
Schalke – Ajax (0:2) 3:2. Ajax áfram, samanlagt 4:3.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Man. Utd 2:1 Anderlecht opna loka
120. mín. Leik lokið United er komið í undanúrslit, samanlagt 3:2.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert