Að duga eða drepast fyrir Barcelona í El Clásico

Cristiano Ronaldo og Lionel Messi verða í eldlínunni í El …
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi verða í eldlínunni í El Clásico á sunnudaginn. AFP

Knattspyrnuáhugamenn út um allan heim bíða spenntir eftir viðureign erkifjendanna Real Madrid og Barcelona, El Clásico, sem eigast við á Santiago Bernabeu á sunnudagskvöldið.

Það er að duga að drepast fyrir Spánarmeistarana í Barcelona en þeir eru þremur stigum á eftir Real Madrid, sem á leik til góða. Með sigri jafna Börsungar erkifjendur sína í toppsætinu en sigur færir Real Madrid nær meistaratitlinum sem það hefur ekki unnið síðan 2012.

Katalóníumenn eru auðvitað í sárum eftir að hafa fallið úr leik í Meistaradeildinni en Evrópumeistararnir í Real Madrid eru í góðum gír eftir að hafa tryggt sér sæti í undanúrslitum Meistaradeildarinnar sjöunda árið í röð þar sem þeir mæta grönnum sínum í Atlético Madrid.

Pepe og Raphael Varane eru á sjúkralistanum hjá Real Madrid og verða ekki með. Brasilíumaðurinn Neymar tekur út leikbann í liði Barcelona og líklegt þykir að Paco Alcacer leysi hann af hólmi úti á vinstri vængnum.

Líklegt byrjunarlið Real Madrid: Navas; Carvajal, Ramos, Nacho, Marcelo; Modric, Casemiro, Kroos; Isco, Benzema, Ronaldo.

Líklegt byrjunarlið Barcelona: er Stegen; Sergi Roberto, Pique, Umtiti, Alba; Rakitic, Busquets, Iniesta; Messi, Suarez, Alcacer.

Fyrri viðureign liðanna á Camp Nou lauk með 1:1 jafntefli í byrjun desember þar sem Luis Suárez kom Börsungum yfir á 53. mínútu en Sergio Ramos jafnaði metin á lokamínútunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert