500. markið hjá Messi gæti breytt öllu

Lionel Messi fagnar marki sínu í gær.
Lionel Messi fagnar marki sínu í gær. AFP

Mark númer 500 hjá Lionel Messi fyrir Barcelona verður lengi í minnum haft, sérstaklega ef liðið landar spænska meistaratitlinum. Markið gaf Barcelona í það minnsta von en það kom úr síðustu spyrnu El Clásico í gær þegar Barcelona vann Real Madrid 3:2 í mögnuðum fótboltaleik á Santiago Bernabéu.

Messi skoraði tvö mörk í leiknum og er nú langt kominn með að tryggja sér sinn fjórða gullskó, en hann er markahæstur í spænsku 1. deildinni með 31 mark, sjö mörkum meira en næsti maður, Luis Suárez. Seinna markið í gær kom í kjölfarið á mögnuðum spretti Sergi Roberto fram völlinn. James Rodriguez virtist hafa tryggt Real jafntefli skömmu áður, þrátt fyrir að liðið væri manni færra eftir glórulausa tæklingu Sergio Ramos á Messi korteri fyrir leikslok. Börsungar áttu þó síðasta orðið.

Barcelona er nú á toppi deildarinnar með 75 stig líkt og Real. Endi liðin jöfn að stigum verður Barcelona Spánarmeistari vegna innbyrðis viðureigna liðanna. Hins vegar er það svo að Barcelona á 5 leiki eftir en Real 6. Börsungar þurfa því að treysta á að Real tapi að minnsta kosti einum leik til viðbótar. Það ætti að efla von þeirra að Real á eftir að mæta hinum þremur liðunum sem unnið hafa lærisveina Zinedine Zidane í vetur, ef horft er til allra keppna, en það eru Celta Vigo, Sevilla og Valencia. Real á einnig eftir að mæta Sverri Inga Ingasyni og félögum í Granada, Deportivo La Coruna og Málaga. Þess á milli mætir liðið Atlético Madrid í tveimur leikjum í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

Zinedine Zidane, þjálfari Real, hrósaði Messi í leikslok enda ekki annað hægt gagnvart manninum sem skoraði tvö mörk, þar á meðal sigurmarkið, og fiskaði fyrirliða Real af velli með rautt spjald.

„Messi gerði gæfumuninn fyrir sitt lið. Í dag skoraði hann tvö mörk og við réðum ekki við hann. Við höndluðum heldur ekki nægilega vel augnablik í leiknum þar sem við gátum veitt þeim skráveifu,“ sagði Zidane. sindris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert