„Mikilvægt skref í átt að titlinum“

Lionel Messi fagnar sigurmarkinu á Santiago Bernabeu í gærkvöldi.
Lionel Messi fagnar sigurmarkinu á Santiago Bernabeu í gærkvöldi. AFP

Lionel Messi hrósaði sínu liði eftir sigurinn dramatíska gegn Real Madrid í gærkvöld en Messi skoraði sigurmarkið með lokaskoti leiksins og Barcelona hrósaði 3:2 sigri í frábærum fótboltaleik.

„Við fórum til Bernabeu til þess að vinna og að halda áfram að berjast um meistaratitilinn,“ skrifaði Messi á Facebook-síðu sína en þegar hann skoraði sigurmarkið var það hans 500. fyrir Katalóníuliðið.

Real Madrid og Barcelona eru jöfn að stigum með 75 stig en Madridarliðið á leik til góða en Barcelona hefur betur í innbyrðisviðureignum liðanna.

„Það er enn mikið eftir en við fórum frá leiknum í gleðivímu og tókum mikilvægt skref í átt að titlinum,“ skrifaði Messi, sem er markahæstur í spænsku 1. deildinni með 31 mark.

Barcelona stefnir á að vinna meistaratitilinn þriðja árið í röð og vinna bikarkeppnina annað árið í röð en Börsungar mæta Alaves í bikarúrslitaleiknum 27. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert