Zidane sagður valtur í sessi hjá Real

Zinedine Zidane.
Zinedine Zidane. AFP

Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid, verður látinn fara í sumar ef liðið vinnur ekki titil á tímabilinu. Þetta er fullyrt í frétt spænska miðilsins AS.

Real Madrid tapaði fyrir erkifjendum sínum í Barcelona, 3:2, í stórleik á sunnudagskvöld og eru liðin nú jöfn í efsta sætinu. Ef svo fer í lokin mun Barcelona vinna titilinn á betri árangri í innbyrðis viðureigna stórliðanna í vetur.

Forráðamenn Real eru sagðir ætla að fá Joachim Löw, landsliðsþjálfara Þýskalands, til þess að taka við Real í sumar ef Zidane skilar ekki titli. Antonio Conte, stjóri Chelsea, og Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham, eru einnig sagðir vera á óskalista Real.

Zidane tók við Real Madrid í janúar í fyrra og stýrði liðinu í annað sæti spænsku 1. deildarinnar, en til sigurs í Meistaradeild Evrópu. Real er einnig komið í undanúrslit keppninnar í ár.

Forráðamenn Real Madrid eru þekktir fyrir að vera kröfuharðir og meðal annars var Carlo Ancelotti rekinn árið 2015 eftir að hafa ekki skilað titli í hús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert