Markvörðurinn aftur í fangelsi fyrir morðið

Bruno Fernandes.
Bruno Fernandes. AFP

Brasilíska markverðinum Bruno Fernandes hefur verið skipað að snúa aftur í fangelsi og afplána það sem eftir stendur af 22 ára fangelsisdómi sínum. Bruno var látinn laus á skilorði í febrúar, en nú hefur hæstiréttur Brasilíu afturkallað það.

Bruno hefur setið í fangelsi frá 2010 vegna aðildar sinnar að mannráninu og morðinu á kærustu sinni, Elizu Samudio, sem höfðaði mál á hendur knattspyrnumannsins vegna meðlagsgreiðslna. Árið 2013 var Bruno dæmdur í 22 ára fangelsi vegna málsins. Honum var hins vegar sleppt í febrúar eftir að málinu var áfrýjað til hæstaréttar.

Lík Samudio hefur aldrei fundist en Bruno viðurkenndi í dómsal að hafa lagt á ráðin með vinum sínum um að myrða hana. Þá sagði hann að líkamsleifar hennar hefðu verið gefnar hundum.

Eftir að hafa verið látinn laus var hann fenginn til liðs við Boa Esporte, sem spilar í brasilísku 2. deildinni. Vakti það hins vegar miklar deilur og styrktaraðilar félagsins voru margir hverjir fljótir að láta sig hverfa. Nú er það hins vegar Bruno sem þarf að láta sig hverfa, aftur bak við lás og slá.

Markmaðurinn þykir hæfileikaríkur og spilaði eitt sinn fyrir knattspyrnuliðið Flamengo. Þá fóru sögur af því á sínum tíma að hann hefði vakið athygli yfirmanna hjá ítalska stórliðinu AC Milan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert