Spænsku risarnir myndu lenda í vandræðum

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, telur að spænsku risarnir Real Madrid og Barcelona myndu lenda í vandræðum með ákafann og kraftinn í leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

Klopp tók við Liverpool í október árið 2015 en undir hans stjórn er Liverpool sem stendur í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar.

„Það væri erfitt fyrir þessi frábæru spænsku lið að vinna úrvalsdeildina. Auðvitað myndu Real Madrid og Barcelona vera í toppbaráttunni og berjast um alla bikara en þeim myndi reynast það erfitt,“ sagði Klopp í viðtali við spænska blaðið Marca.

„Það er ekkert gefið í úrvalsdeildinni. Ákafinn í leikjum er mikill og það getur margt gerst. Það kemur aldrei leikur þar sem þú vinnur 4:0-sigur og getur hvílt allt byrjunarliðið. Það gerist ekki á Englandi og heldur ekki í Þýskalandi, nema þú sért Bayern München,“ bætti Klopp við.

Hann sagði að Chelsea hefði unnið marga leiki 1:0, þrátt fyrir að vera í góðri stöðu í efsta sæti. „Ég hef þjálfað í tveimur deildum og get sagt að þessi er mjög erfið. Spyrjið Guardiola, hann mun segja það sama,“ sagði Klopp en Guardiola stýrir Manchester City og vinnur ekki titil á tímabilinu, í fyrsta skipti í þjálfaratíð sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert