Matthías skoraði tvö fyrir Rosenborg

Matthías Vilhjálmsson.
Matthías Vilhjálmsson. Ljósmynd/rbk.no

Fjölmargir Íslendingar voru í eldlínunni í 2. umferð norska bikarsins í knattspyrnu í dag. Þrjú íslensk mörk litu dagsins ljós og skoraði Matthías Vilhjálmsson tvö þeirra, þrátt fyrir að hafa aðeins leikið síðari hálfleikinn í 9:1 sigri Rosenborg á Tynset, sem leikur í norsku D-deildinni.

Aron Sigurðarson skoraði svo fyrra mark Tromsø, sem vann 2:0 sigur á Finnsnes sem einnig leikur í þriðju efstu deild. Adam Örn Arnarson og Daníel Leó Grétarsson spiluðu báðir allan leikinn fyrir Aalesund sem vann Byåsen, 2:0. Aron Elís Þrándarson spilaði síðustu 27 mínútur leiksins fyrir Aalesund. 

Viðar Ari Jónsson spilaði allan leikinn fyrir Brann, sem hafði betur gegn Lysekloster á útivelli, 2:0. Kristinn Jónsson kom inn á sem varamaður á 69. mínútu í 2:0 sigri Sogndal á Raufoss og Guðmundur Kristjánsson spilaði fyrstu 67 mínútur leiksins fyrir Start, sem tapaði fyrir Flekkeröy, 4:3. Óttar Magnús Karlsson spilaði svo fyrri hálfleikinn fyrir Molde, sem lagði Hødd, 2:1.

Ingvar Jónsson sat allan tímann á varamannabekk Sandefjord, sem tapaði óvænt fyrir Ørn-Horten 3:1 og Samúel Kári Friðjónsson var ekki í leikmannahópi Vålerenga, sem vann Kråkerøy í vítaspyrnukeppni, en staðan eftir venjulegan leiktíma var 2:2. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert