Viðar fékk silfur – skoraði í vítakeppni

Viðar Örn Kjartansson í úrslitaleiknum í kvöld.
Viðar Örn Kjartansson í úrslitaleiknum í kvöld. Ljósmynd/maccabi-tlv.co.il

Viðar Örn Kjartansson fékk í kvöld silfurverðlaunin í ísraelsku bikarkeppninni í knattspyrnu með Maccabi Tel-Aviv eftir tap í framlengdri vítaspyrnukeppni gegn Bnei Yehuda í úrslitaleiknum í Jerúsalem.

Viðar lék allan tímann með Maccabi Tel-Aviv en leikurinn endaði 0:0 eftir framlengingu. Útlitið var gott hjá liði hans í vítaspyrnukeppninni því þegar Viðar skoraði í þriðju umferð var lið hans komið í 3:1. En eftir það gekk allt á afturfótunum, liðið brenndi af þremur spyrnum í röð og fyrrverandi kempur úr ensku knattspyrnunni, Yossi Benayoun og Tal Ben Haim, voru sökudólgarnir í tvö síðari skiptin.

Bnei Yehuda, sem er líka frá Tel-Aviv, jafnaðí metin og skoraði síðan úr sinni spyrnu í fyrstu umferð bráðabanans og þar með var sigurinn í höfn.

Viðar hlaut þar með sín önnur silfurverðlaun á tímabilinu en Maccabi Tel-Aviv hafnaði í öðru sæti úrvalsdeildarinnar í Ísrael, á eftir Hapoel Beer Sheva. Hann varð hins vegar markakóngur deildarinnar með 19 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert