Hef grátið í allan dag

Francesco Totti veifar til stuðningsmanna Roma.
Francesco Totti veifar til stuðningsmanna Roma. AFP

Það var tilfinningarþrungin stund á ólympíuleikvanginum í Róm í gær þegar goðsögnin Francesco Totti lék sinn síðasta leik með Roma eftir 25 ára dygga þjónustu við félagið.

„Stundin er runnin upp. Ég hef grátið í allan dag. Þetta var eina treyjan mín. Ég tók þessa ákvörðun með eiginkonu minni og fjölskyldu. Ég hefði verið til í að vera í 25 ár til viðbótar. Takk Roma, takk fjölskylda mín, takk mamma, pabbi og bróðir,“ sagði Totti eftir leikinn gegn Genoa sem Roma vann, 3:2, og endaði í öðru sæti deildarinnar á eftir Juventus.

Totti, sem er 40 ára gamall, lék 785 leiki fyr­ir Roma og skorað í þeim leikj­um 307 mörk, en hann hef­ur all­an sinn fer­il leikið fyr­ir Róm­verja og spilað með liðinu í 25 leiktíðir. Talið er að Totti muni taka við stöðu yf­ir­manns knatt­spyrnu­mála hjá Roma í sum­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert