Modric minnislaus í réttarsalnum

Luka Modric mætir í réttarsalinn.
Luka Modric mætir í réttarsalinn. AFP

Dejan Lovren, varnarmaður Liverpool, bar ekki vitni í spillingarmáli í heimalandinu í gær eins og til stóð vegna þess að réttarhöldunum var frestað. Áður hafði Luka Modric borið vitni í sama máli.

Zdra­v­ko Mamic, fyrrverandi formaður Dinamo Za­greb, sem sakaður er um að hafa dregið til sín fé í tengslum við sölu leikmanna, missti stjórn á skapi sínu í réttarsal. Hann kvartaði yfir spurningum saksóknara og eftir að hafa hlotið aðvörun frá dómara reyndu lögfræðingar Mamic að róa hann niður.

Það gerði Mamic hins vegar enn reiðari. „Hvað eruð þið þið að tala um? Ég get hagað mér eins og ég vil,“ öskraði Mamic á lögmenn sína. „Snáfið burt! Þið munið ekki sjá um að verja mig, ég geri það sjálfur!“

Hlé var gert á réttarhöldunum en þau halda áfram í júlí. Lovren mun bera vitni í september en áður hafði Luka Modric, fyrirliði króatíska landsliðsins, borið vitni í málinu.

Hvorki Modric né Lovr­en eru grunaðir um nokkuð sak­næmt. Málið snýst um fé­laga­skipti þeirra frá króa­tíska fé­lag­inu Dinamo Za­greb, en Modric var seld­ur þaðan til Totten­ham árið 2008 og og Lovr­en til Lyon árið 2010. Modric leik­ur í dag með Real Madrid en Lovr­en með Li­verpool.

Modric bar fyrir sig minnisleysi

Modric sagði í fyrra að viðauki þess efnis, að Mamic hlyti ríkulegan ágóða eftir að Modric var seldur til Tottenham, hefði verið ákveðinn eftir söluna, sem eru slæmar fréttir fyrir Mamic.

Modric hafði hins vegar aðra sögu að segja í réttarsal, þar sem hann bar fyrir sig minnisleysi. „Ég hef aldrei sagt þetta...þetta...að þetta hafi verið ákveðið eftir á,“ stamaði Modric.

„Ég sagði ykkur að ég man ekki hvenær þetta gerðist.“

Mamic er gríðarlega óvinsæll í Króatíu og vitnisburður Modric, og tenging hans við Mamic, hefur gert það að verkum að hann er ekki vinsælasti knattspyrnumaður landsins. 

Stuðningsmenn króatíska knattspyrnuliðsins Hajduk Split létu Modric heyra það. „Modric, litli skíturinn þinn,“ kölluðu þeir. „Luka, þú átt eftir að muna eftir þessum degi,“ var skrifað á hótel þar sem Modric-fjölskyldan dvaldi sem flóttamenn á meðan stríð geisaði á Balkanskaga á 10. áratug síðustu aldar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert