Segja Arnór Ingva ætla að fara

Arnór Ingvi Traustason mun vilja yfirgefa Rapid Vín í sumar.
Arnór Ingvi Traustason mun vilja yfirgefa Rapid Vín í sumar. AFP

Útlit er fyrir að keppnistímabil Arnórs Ingva Traustasonar, landsliðsmanns í knattspyrnu, hjá Rapid Vín í Austurríki í vetur verði hans eina tímabil hjá félaginu.

Samkvæmt austurrískum miðlum er Arnór Ingvi ósáttur hjá félaginu og mun umboðsmaður hans hafa greint félaginu frá því, og að önnur félög væru áhugasöm um að fá hann. „Það kæmi mér ekki á óvart ef Arnór óskaði eftir fundi með mér snemma í þessari viku,“ er haft eftir Fredy Bickel, íþróttastjóra Rapid Vín, í miðlinum Krone.

Arnór er með samning við félagið til ársins 2020 eftir að hann var keyptur á metupphæð í fyrravor. Í frétt kurier.at segir að Arnór komi til æfinga úr sumarfríi í dag en að hlutirnir gætu gengið hratt fyrir sig á næstu dögum. Fari svo að Arnór verði seldur verði ekki keyptur kantmaður í hans stað, heldur ætli Rapid Vín sér að nýta peningana til að kaupa framherja í staðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert