Segja að Neymar sé búinn að kveðja

Er Neymar á förum frá Barcelona?
Er Neymar á förum frá Barcelona? AFP

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar er sagður vera búinn að kveðja nokkra af liðsfélögum sínum í Barcelona og hefur tjáð þeim að hann sé að ganga til liðs við franska stórliðið Paris SG.

Þetta kemur fram í franska blaðinu Le Parisen. Parísarliðið er reiðbúinn að kaupa Neymar út úr samningi hans við Barcelona en til þess þarf félagið að reiða fram hvorki meira né minna en 222 milljónir evra en sú upphæð jafngildir tæpum 27 milljörðum króna.

Paris SG er tilbúið að gera fimm ára samning við Neymar og greiða sem svarar 82 milljónum króna í vikulaun eftir skatta. Brasilíumaðurinn hefur leikið með Katalóníuliðinu frá árinu 2013.

Í gær greindu fjölmiðlar frá því að Barcelona hafi boðið 72 milljónir punda í Brasilíumanninn Philippe Coutinho hjá Liverpool sem bendir til þess að Börsungar sjái fyrir sér að Neymar sé á förum. Liverpool hefur hins vegar gefið út þau skýru skilaboð að Coutinho sé ekki til sölu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert