Bankar daglega á dyrnar hjá yfirmanninum

Ólafur Helgi Kristjánsson.
Ólafur Helgi Kristjánsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson stóð á milli stanganna hjá Randers, liðinu sem Ólafur Kristjánsson stýrir í dönsku úrvalsdeildinni, er liðið beið lægri hlut gegn Danmerkurmeisturum FC København, 3:0, í dag.

Randers hefur eitt stig eftir tvo leiki í deildinni og ekki skorað mark.

Ólafur sagði áhugaverða hluti í viðtali eftir leik og á vef BT kemur fram að Ólafur banki daglega á dyrnar hjá framkvæmdastjóra félagsins með von um að fleiri leikmenn séu á leiðinni.

„Ég banka á dyrnar hjá framkvæmdastjóranum, Michael Gravgaard, á hverjum einasta degi og vona að hann hafi fundið gullmola fyrir okkar í sóknarlínuna,” sagði Ólafur í viðtali eftir leik.

„Það þarf ekkert endilega að vera sóknarmaður en mér finnst vörnin líta vel út,” sagði Ólafur.

Randers hefur misst marga leikmenn úr sínum röðum frá síðasta tímabili og fengið færri inn og það er ekki víst að liðið fái fleiri leikmenn að sögn framkvæmdastjórans.

„Ólafur veit það vel að eins og staðan er núna, þá gæti verið að núverandi hópur sé hinn endanlegi hópur,” sagði Gravgaard sem sagðist hins vegar að sjálfsögðu vera með augun opin.

„Við eigum pening til þess að nota en það þarf að vera úthugsað ef við ætlum að fá fleiri leikmenn inn,” sagði framkvæmdastjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert