Viljum halda Neymar í okkar röðum

Neymar bregst við misheppnuðu skoti í leik Barcelona og Juventus …
Neymar bregst við misheppnuðu skoti í leik Barcelona og Juventus í gær. AFP

Brasilíski framherjinn, Neymar, hefur þráfaldlega verið orðaður við brottför frá Barcelona undanfarið. PSG er talið líklegur áfangastaður brasilíska framherjans og kaupverðið rúmar 200 milljónir evra. Ernesto Valverde, þjálfari Barcelona, tjáði sig um þennan orðróm í samtali við BBC eftir 2:1-sigur liðsins gegn Juventus í æfingaleik í New Jersey í gær.

„Við viljum halda Neymar í okkar herbúðum. Við vitum hversu mikilvægur hann er inni á vellinum fyrir okkur, auk þess sem hann er mikils virði fyrir leikmannahópinn utan vallar,“ sagði Valverde í samtali við BBC eftir leikinn í gær.  

Fregnir herma að PSG hafi nú þegar lagt inn kauptilboð í Neymar sem hljóðar upp á 222 milljónir evra og þannig virkjað ákvæði í samningi Neymar við Barcelona sem kveður á um að Barcelona neyðist til þess að samþykkja svo hátt tilboð. Josep Maria Bartomeu, forseti Barcelona, lét hins vegar hafa eftir sér í samtali við BBC að Neymar væri ekki til sölu. 

Neymar sem skoraði bæði mörk Barcelona í leiknum gegn Juventus í gær gaf ekki kost á sér í viðtöl við fjölmiðla eftir leikinn. Neymar sem gekk til liðs við Barcelona frá Santos árið 2013 skrifaði undir fimm ára samning við Barcelona í október á síðasta ári og er því samningsbundinn félaginu til haustsins 2021. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert