Leikmaður Ajax kominn af gjörgæslu

Hlúð að Abdelhak Nouri á vellinum.
Hlúð að Abdelhak Nouri á vellinum. AFP

Abdelhak Nouri, miðjumaður hollenska knattspyrnufélagsins Ajax, er kominn af gjörgæslu þremur vikum eftir að hafa hnigið niður í æfingaleik gegn Werder Bremen í byrjun þessa mánaðar.

Nouri var lengi vel haldið í dái en getur nú andað sjálfur eftir því sem fram kemur í tilkynningu á heimasíðu Ajax, en líðan hans er annars óbreytt. Líklegt er talið að hann muni nánast ekki geta gert neitt sjálfur er hann vaknar úr dái.

Nouri, sem er tvítugur að aldri, lék 15 leiki með Ajax í deild og bikar á síðustu leiktíð. Hann hefur leikið með öllum yngri landsliðum Hollands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert