„Þetta er gríðarlegt sjokk“

Rúnar Kristinsson tekur í spaðann á Roger Lambrecht, forseta Lokeren, …
Rúnar Kristinsson tekur í spaðann á Roger Lambrecht, forseta Lokeren, sem lét Rúnar fara í dag. AFP

„Þetta kom bara eins og þruma úr heiðskíru lofti. Það er bara einn maður sem stjórnar félaginu, hann er forsetinn og hann tekur þessa ákvörðun,“ segir Rúnar Kristinsson, knattspyrnuþjálfari, sem í morgun var óvænt rekinn frá belgíska félaginu Lokeren.

Rúnari var sagt upp eftir æfingu í morgun, eftir aðeins tvo leiki á nýju tímabili, en hann tók við Lokeren í lok október í fyrra. Þá hafði liðið tapað átta af tólf leikjum sínum en Rúnar stýrði því úr fallbaráttu og hélt því í efstu deild. Eftir 4:0-tap gegn Club Brugge í fyrsta leik þessa tímabils og 1:0-tap gegn Kortrijk í þeim næsta var hann hins vegar látinn fara. Peter Maes, sem stýrði Lokeren árin 2010-2015, var ráðinn í hans stað af Roger Lambrecht, forseta Lokeren:

„Hann er strax búinn að ráða annan mann, svo ástæðan fyrir þessu var væntanlega sú að hann vildi ráða þennan þjálfara sem hefur þjálfað hérna áður. Hann er búinn að vera laus í einhverja mánuði og mætir bara til að stýra æfingu strax á morgun,“ sagði Rúnar við mbl.is í dag, en heyra mátti að hann var enn furðu lostinn yfir þessum óvæntu tíðindum:

Maðurinn á klúbbinn og það skiptir engu hvað ég segi

„Fótboltaheimurinn í dag er bara orðinn svona. Maður veit aldrei á hverju maður á von. Þetta kom manni gjörsamlega í opna skjöldu og maður finnur meira fyrir sjokki en nokkru öðru. Það er ekkert elsku mamma í þessu, bara að taka til á skrifborðinu og koma sér út. Maðurinn á klúbbinn. Hann er orðinn 85 ára og stýrir þessu, og það skiptir engu máli hvað ég segi. Svona er þetta bara, og þetta fær mann aðeins til að hugsa um hvað maður vilji gera í þessu blessaða lífi,“ sagði Rúnar, sem stýrt hefur Lokeren með aðstoð Arnars Þórs Viðarssonar en ekki er ljóst hvort hann verður Maes til aðstoðar. Það ætti að skýrast betur í kvöld.

Rúnar Kristinsson var ráðinn til Lokeren í lok október í …
Rúnar Kristinsson var ráðinn til Lokeren í lok október í fyrra. AFP

„Þetta hefur gengið gríðarlega hratt. Ég mætti í vinnuna í morgun eins og alla aðra daga og stýrði minni æfingu. Þegar æfingu var lokið fundað ég með forsetanum og hann tjáði mér þetta. Það þýðir ekkert að malda í móinn yfir því. Það voru engar ástæður, hann vildi bara breyta. Þetta er algjörlega óskiljanlegt, því við erum búnir að gera mjög góða hluti með liðið eftir að hafa tekið við mjög erfiðu búi í nóvember á síðasta ári. Við björguðum liðinu úr fallbaráttu og komum því á góðan stað. Öll markmið náðust á síðustu leiktíð og undirbúningstímabilið hefur verið mjög gott. Við höfum gert miklar breytingar í félaginu, ég og Arnar, losað okkur við leikmenn sem þurfti að losna við og byggja upp gríðarlega góða líkamsræktaraðstöðu fyrir leikmenn, sem var ábótavant til margra ára. Liðið er í gríðarlega góðu standi og við vorum mjög bjartsýnir fyrir þetta tímabil,“ sagði Rúnar.

Hugsa mig vel um varðandi næsta skref

Rúnar rakaði inn titlum sem þjálfari KR áður en hann var ráðinn til Lilleström í Noregi undir lok árs 2014. Frá Lilleström var hann látinn fara í september í fyrra en skömmu síðar kom tækifærið hjá Lokeren, þar sem hann gerði garðinn frægan sem leikmaður líkt og hjá Lilleström.

„Ég held að maður þurfi að hugsa sig vel um varðandi næsta skref. Maður þarf að fá að hugsa þetta í nokkra daga. Maður var kominn á góðan stað, í frábæra deild og búinn að fá þetta frábæra tækifæri. Það rennur manni svo svona úr greipum, án þess að maður hafi gert nokkuð rangt. Við vorum á góðri leið, allir gríðarlega ánægðir með undirbúningstímabilið og mikil trú á liðinu. Þetta eru mikil vonbrigði fyrir mig og gríðarlega erfitt að taka þessu. Þetta gerir manni líka erfitt fyrir að fá annað svona starf, og maður þarf að hugsa sig vel um hvað maður tekur sér fyrir hendur,“ sagði Rúnar.

„Þetta er brútal vinna, oftar en ekki. Maður þarf að hugsa um fjölskyldu sína líka. Maður getur ekki verið að þvælast með börnin á milli landa og í mismunandi skóla. Fjölskyldan hefur alltaf fylgt mér og maður þarf að hugsa vel um hvað sé best að gera. Ég skrifaði undir nýjan samning í mars til ársins 2019, og þetta er gríðarlegt sjokk þegar forsetinn er nýbúinn að sýna manni þetta traust að svona skuli fara,“ sagði Rúnar, en engin klásúla var í samningi hans við Lokeren um að hægt væri að rifta honum á þessum tímapunkti án þess að því fylgdi kostnaður fyrir félagið.

Rúnar Kristinsson vann til fjölda titla sem þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson vann til fjölda titla sem þjálfari KR. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert