Helst áfram í Þýskalandi

Aron Jóhannsson..
Aron Jóhannsson.. Ljósmynd/www.werder.de

Knattspyrnumaðurinn Aron Jóhannsson vonast til að finna sér nýtt félag til að spila fyrir áður en lokað verður fyrir félagskipti í bestu deildum Evrópu um mánaðamótin. Aron er með samning við þýska 1. deildarfélagið Werder Bremen, sem keypti hann frá AZ Alkmaar í Hollandi sumarið 2015, og er með samning til sumarsins 2019 en sér ekki fram á að fá tækifæri í liðinu í vetur.

„Það er mikil óvissa hjá mér eins og staðan er akkúrat núna. Ég er í erfiðri stöðu hjá Werder þar sem ég fæ lítið að spila. Mér hefur gengið vel í æfingaleikjum og á æfingum en fæ ekki sénsinn þegar það koma alvöru leikir. Staðan í dag er þannig að ég er að leita að nýju liði,“ sagði Aron við Morgunblaðið í gær.

Eftir að hafa raðað inn mörkum fyrir AZ í Hollandi kom Aron til Werder og skoraði tvö mörk í fyrstu sex leikjum sínum, en svo seig á ógæfuhliðina. Aron glímdi við erfið mjaðmarmeiðsli og spilaði ekki fleiri leiki á tímabilinu, og þrátt fyrir að vera heill heilsu stærstan hluta síðustu leiktíðar var hann aðeins tvisvar sinnum í byrjunarliði Werder í deildarleikjum en 20 sinnum á varamannabekknum.

„Ég er í toppstandi líkamlega og hef verið það í langan tíma. Þessi staða er mjög erfið upp á andlega þáttinn. Það er erfitt að vera heill og klár í slaginn vitandi það að ég gæti auðveldlega spilað í þessu liði en að fá ekki sénsinn. Ég er í þessu til þess að spila leiki og hafa gaman inni á vellinum, ekki til þess að sitja á bekknum og stundum uppi í stúku,“ sagði Aron.

Nánar er rætt við Aron í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert